<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, október 19, 2002

Nú erum við búin að vera hér í mánuð og erum alveg að finna okkur hér, þó svo að tungumálið sé að sjálfsögðu vandamál ennþá erum við óðum að læra og erum allavega byrjuð að geta tjáð okkur eitthvað.
Skólinn á fullu...
Skólinn er kominn á fullt og við erum enn að venjast nýjum kennsluaðferðum hér og þeirri mjög svo breyttu aðstöðu sem hér er. Til að mynda eru flestar stofurnar hér mjög tæknivæddar, sjónvörp, myndvarpar, hljóðkerfi, skjávarpar og allar svoleiðis græjur en borðin og stólarnir sem eru hér eru svo lítil að maður rétt kemur einu A5 blaði á borðið og kannski blýanti með. Svo eru bara 2 stofur með loftræstingu þannig að stundum getur loftið orðið þungt í sumum stofum. Einnig erum við náttúrulega ekkert með tölvunar í skólanum og glósum eins og brjálæðingar eins og á Bifröst sem er góð upprifjun úr framhaldsskólanum, þ.e. að reyna að muna eitthvað utanbókar. Einnig er maður alltaf með B.s ritgerðina á bak við eyrað og við erum alltaf að velta fyrir okkur hvað eigi að skrifa um og einnig að búa til ramma utan um þær hugmyndir sem komnar eru, að sjálfsögðu reynum við að gera eitthvað sem ekki væri hægt að gera heima á Íslandi og þannig nýta veru okkur hér betur.
Brunaæfing
Í síðustu viku var þvílíkur viðbúnaður og minnisbréf frá skólanum komu annan hvern dag því á miðvikudaginn átti sko brunaliðið að koma og vera með æfingu. Þvílík upplifun sem það var fyrir alla skiptinemana því Japanarnir eru náttúrulega bara klikkaðir þegar kemur að einhverju svona. Það komu 3 stórir brunabílar og nokkrir litlir bílar og örugglega 40-50 slökkviliðsmenn ásamt allskonar bæjarstarfsmönnum sem voru í því að stýra umferðinni, taka myndir og mæla allskonar atriði. Nota bene þá skipa bæjarstarfsmenn um 16% af öllu vinnuafli í Japan sem er met á heimsmælikvarða og ótrúlegt að sjá kannski 3 menn stýra umferðinni þegar vegaframkvæmdir standa yfir. Þá standa þeir bara og stýra umferðinni (og líka gangandi fólki) allan daginn. En allavega þá byrjuðu þeir á því að fylla allt húsið sem við búum í með reyk og svo settu þeir brunakerfið í gang og allir áttu að fara fram á gang. Ok, það gekk ágætlega nema hvað svo biðum við í reyknum í 10 mínútur þangað til brunakallarnir komu og “björguðu” okkur. Ég segi nú bara eins gott að maður geti haldið niðri andanum ef það kviknar í í alvöruJ. Svo var húsbóndinn náttúrlega í lykilhlutverki þegar kom að æfingu í að yfirgefa svalirnar í stiga, myndir af æfingunni eru væntanlegar þegar Maja er búin að finna út hvernig maður setur þær á netið.
“Teboð” og Tónleikar
Um síðustu helgi var okkur boðið í, það sem við héldum að væri japanskt teboð en svo var nú aldeilis ekki. Um 20 erlendir stúdentar voru plataðir á UNESCO fund og þar vorum við að tala um menningu og útbreiðslu hennar í tvo klukkutíma!!! Ein konan á skrifstofunni hér hengdi þetta upp og þetta var auglýst sem “Traditional Japanese Tea Party”. Við getum í hreinskilni sagt að allir voru frekar pirraðir eftir þessa reynslu og það sem verður hengt hér upp í framtíðinni verður rannsakað nákvæmlega áður en lagt verður af stað. En um kvöldið var okkur svo boðið á japanska trommutónleika sem voru mjög skemmtilegir. Það voru um 160 manns sem voru með ýmisskonar atriði, fólkið var á aldrinum 5 ára og uppúr og spiluðu á stórara japanskar trommur og flautur og heita Taddako. Myndir frá því eru einnig væntanlegar, það var að vísu sagt í byrjun að það mátti ekki nota myndavélar með flassi en við skildum náttúrulega ekki neitt þannig að við eigum nokkrar myndir.
Dekrað við afmælisbarnið
Þann 17 október átti húsfreyjan svo afmæli og var 22 ára. Um klukkan 22.00 þann 16. október komu svo tveir skiptinemar og báðu mig að halda Maju vakandi til miðnættis því þeir ætluðu að koma henni á óvar. Rétt eftir miðnætti var svo dinglað og þar voru allir skiptinemarnir mættir og sungu fyrir hana afmælissönginn, gáfu henni flotta köku og gjafir og það er óhætt að segja að þetta kom verulega á óvart og var mjög skemmtilegt. Um morguninn 17. vaknaði ég svo snemma og bjó til morgunmat handa afmælisbarninu og bauð henni svo að koma að borða á japönsku og gaf henni smá afmælispakka. Í gærkvöldi (föstudagurinn 18. okt) fórum við svo út að borða á nýjan stað hér í Otaru sem heitir Gyu Kaku. Þar sem þetta var nýr staður og japanarnir eru svo svakalega nýjungagjarnir var troðfullt og 7 hópar á undan okkur á biðlista, úti var hellirigning þannig að við ákváðum að bíða. Eftir biðina sem var um klukkutími, og að sjálfsögðu fengum við te á meðan við biðum, settumst við niður og þetta var þannig staður þar sem maður eldar sjálfur og staðurinn var mjög flottur og maturinn frábær. Verst var að matseðillinn var á japönsku en við létum þjóninn bara velja eitthvað handa okkur og allt sem hann kom með var mjög gott. Sérstakt uppáhald var nautatungan!!!
Betri tenging við umheiminn
Nú erum við kominn með síma þannig að þið getið hringt í okkur ef söknuðurinn er að fara með ykkur. Við vitum samt ekki hvað mínútan kostar en við erum að vinna í að finna það út, kemur auglýsing von bráðar sem segir (aðeins ???? mínútan).
Símanúmer = +81 8032332238
Einnig munum við nota þessa síðu til að birta frá okkur efni og setja hér inn myndir því við höfum átt í töluverðu basli með að senda póst þar sem sumir geta ekki tekið við þegar við sendum stóran pósta og því notum við þennan möguleika og sendum ykkur svo bara tilkynningu þegar eitthvað nýtt er sett inn.
Svo er það náttúrulega týpískt að tölvan mín er örugglega að hrynja þannig að nú eru menn að vinna í því að ná gögnunum úr tölvunni því við brenndum þau ekki á disk áður en við komumL. Við ætlum hvort sem er að kaupa nýjar tölvur hér því hér getur maður fengið fínar tölvur með DVD og innbyggðum brennara og hvað þetta er nú allt saman á um 100 þúsund íslenskar.

Bestu kveðjur í bili og við sendum á ykkur mail þegar við náum að koma myndum á netið.

fimmtudagur, október 17, 2002

Jæja þá eru hjónin loksins komin með dagbók á netinu. Við vorum að hugsa um að halda dagbók með gamla laginu en þetta er betri og auðveldari leið.
Ég á afmæli í dag fyrir þá sem ekki vita
Maja í Japan

This page is powered by Blogger. Isn't yours?