<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, nóvember 05, 2002

Kenningar Omori
Í rekstrarhagfræðitíma á föstudaginn síðasta var kennarinn, Omori að ræða um hvernig okkur gengi að venjast kuldanum og snjónum hérna. Auðvitað fór umræðan að snúast um Iceland og það að við hlytum að vera vön kulda og miklum snjó. Allt í góðu lagi nema hvað Omori sagði að við skyldum passa okkur á því að ef við værum lengur en 10 mínútur úti í 12 stiga frosti þá myndi líða yfir okkur þegar við færum aftur inn. Við vorum nú ekkert að gera athugasemd við þessa kenningu Omori en það er alveg ljóst að ef að hún stenst þá liði yfir ansi marga einstaklinga á hverjum degi heima á Íslandi. Þessa kenningu köllum við kenningu Omori.
Omori hefur mikinn áhuga á vetrinum þar sem að hann er fæddur og uppalinn í Osaka og því ekki vanur þessum kulda. Hann sagði okkur frá því að síðasta vetur þegar hann var að fara heim úr vinnunni eitt kvöldið þá var búið að snjóa svo mikið yfir daginn að bílinn hans var horfinn. Hann mundi ekki hvar hann lagði bílnum þannig að hann var búin að grafa upp 3 bíla áður en að hann fann bílinn sinn. Svo annað, Omori segist oft lenda í því að vera úti að labba í miklum snjó og uppgötva svo að hann sé búinn að týna öðrum skónum sínum einhverstaðar á leiðinni. Hann sagði að þetta væri oft búið að koma fyrir sig....
Annað sem að hann ráðleggur okkur er að fjárfesta í mannbroddum til að setja neðan á skóna okkar. Það er reyndar mikið til í því hjá honum því að gatan frá skólanum og niður í bæ er kölluð “hell slope”, segir allt sem segja þarf.
Jólasnjór
Það er byrjað að snjóa í Otaru. Þegar við vöknuðum einn morguninn í síðustu viku var hvít jörð. Það hefur ekki náð að safnast neinn snjór ennþá og snjórinn bráðnar um leið á götunum. Við erum ekki alveg viss en höfum grun um að japanarnir séu búnir að leggja hitalagnir undir flestar göturnar í bænum. Við förum í að kanna þetta nánar.
Það þægilega við snjókomuna hérna er að hún er lóðrétt en ekki á hlið eins og við erum vön heima á Íslandi. Þannig að alltaf þegar snjóar þá snjóar fallegum jólasnjó. Það verður annars skrautlegt að fylgjast með fólkinu hérna ferðast um á þessum pínulitlu bílum sínum þegar það verður kominn 5 metra jafnfallinn snjór eins og var síðasta vetur.
Danssýning á Culture day
Síðasti sunnudagur var frídagur, svokallaður menningardagur. Við skelltum okkur á japanska danssýningu í City hall sem var á vegum Otaru Culture club. Sýningin var allt í lagi en ég er ekki viss um að við eigum eftir að eyða miklum tíma í leikhúsunum hérna í Japan. Það er hægt að skoða myndir frá sýningunni í Culture möppunni á myndasíðunni okkar.

Við erum búin að setja inn nýjar myndir á myndasíðuna okkar. Endilega skoðið öll albúmin því að við erum búin að bæta nýjum myndum inn í sum þeirra.



This page is powered by Blogger. Isn't yours?