<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, nóvember 30, 2002

Á fimmtudaginn síðasta fórum við í matarboðið til Yano san. Þau eru alveg yndisleg en vandamálið er bara að við getum lítið tala við þau. Við mættum til þeirra klukkan 18:00 með Lulu sem að þekkir þau vel og talar bæði japönsku og ensku. Maja byrjaði á því að fara vitlaust úr skónum í forstofunni en það er ekki alveg sama hvernig sumir hlutir eru gerðir í Japan. Þegar við komum inn fórum við að líta í kringum okkur eins og maður gerir oftast þegar maður kemur á nýjan stað og við sáum fljótlega hvað var mikið af dóti og dúkkum um allt hús. Þegar við litum svo inn í eldhúsið þá sat þar dúkka við matarborðið með fullt af gervimat á diski. Ok, við heldum kannski að barnabarn þeirra ætti þessa dúkku og þetta dót en svo kom frú Yano san með dúkkuna í fanginu og sagði nice to meet you, eins og hún væri að segja það fyrir dúkkuna. Við vorum ekki alveg að skilja! Fljótlega var sest við matarborðið og Herra Yano san byrjaði að steikja kjötið og grænmetið í sukiyaki sem er japanskur réttur. Allt saman er steikt á rafmagnspönnu sem er höfð á miðju matarborðinu og svo er sett sojasósa og eitthvað sem við vitum ekki alveg hvað er út í þetta og úr verður sukiyaki réttur. Sukiyaki er annars saman sett úr orðunum suki sem þýðir það sem maður kýs og yaki matreiðsla þannig að þetta er eiginlega svona réttur sem að maður getur bara ráðið hvað maður setur í. Sniðugt! Maturinn var alveg rosalega góður og við borðuðum eins og við mögulega gátum í okkur látið. Þetta var ekki borðað af venjulegum diskum heldur úr skálum og fyrst brítur maður eitt egg í skálina og hrærir það saman og svo borðar maður sukiyaki - ið með því að segja það ofan í eggjahræruna fyrst. Þetta hljómar kannski ekki grinilega en var mjög gott. Eitt sem er siður hérna í Japan er að vera með einn disk undir hvern rétt. Til dæmis var ein skál fyrir sukiyaki, einn diskur fyrir salat, einn lítill diskur með spínati, ein skál fyrir hrísgrjónin og svo ein skál með súrum gúrkum. Ég myndi ekki vilja vaska upp eftir stóra japanska veislu! Í eftirrétt voru svo japanskir ávextir.
Þegar við vorum búin að borða þá spurði gamla hvort að við vildum ekki bara vilja taka með okkur afganginn heim. Við litum bara hvort á annað og þorðum ekki annað en að segja já, maður veit aldrei hvernig japanarnir taka neitun þannig að það er öruggara að vera kurteis heldur en ekki. Við settumst svo við stofuborðið og sýndum þeim gömlu myndir frá Íslandi, þau voru yfir sig hrifin af þessari náttúrufegurð....
Þetta með dúkkuna er svolítið skrítið mál. Dúkkan, sem er um 1 meter á hæð, er í raun dóttir þeirra og er tveggja ára segir gamla. Þau tala við hana eins og hún sé lifandi og þið getið ekki ímyndað ykkur allt dótið sem að dúkkan á... Svo á hún líklega meira af fötum heldur en ég og Gunni til samans og um 20 pör af skóm.... við erum að tala um dúkku hérna...Hún á sér sæti við matarborðið og örugglega allar gerðir af gervimat, gervi spælt egg og gervi hamborgara og bara nefndu það. Þetta var mjög skrítið en ég held að það sé hið besta mál að þau gömlu geti látið tíman líða með því að hugsa um dúkkuna, gefa henni að borða og kaupa á hana ný föt.
Við héldum svo heim á leið um klukkan 22:00 en þá var herra Yano san farinn að geyspa því að hann fer yfirleitt að sofa um 22:00 og vaknar klukkan 05:00 á morgnana. Þetta var alveg rosalega skemmtilegt kvöld og þau spurðu hvenær við ætluðum að koma aftur í heimsókn og hvað þau ættu að elda handa okkur þá. Þau eru yndisleg.

Það eru komnar nokkrar myndir frá heimsókninni inn á neðri myndalinkinn.

þriðjudagur, nóvember 26, 2002

Nú eru komnar nýjar myndir inn á síðuna. Nýjustu myndirnar eru að finna undir neðri linknum hérna vinstra meginn á síðunni. Við skelltum okkur til Sapparo á laugardaginn síðasta og svo aftur í gær (mánudag) og flestar nýju myndirnar eru þaðan.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?