<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, apríl 19, 2003

Nokkrar línur frá Japan

Þá er skólinn byrjaður hjá okkur á fullu. Við erum í færri fögum á þessari önn heldur en haustönn þar sem við fáum bs ritgerðina metna til eininga. Við erum að sjálfsögðu áfram í japönskunni en erum auk þess í Marketing seminar, Information science II og Japanese affairs II. Þessi önn lítur vel út fyrir okkur og við ættum að hafa einhvern tíma til að ferðast og skoða landið.

Okkar tími fer þessa dagana eins og flesta að undanförnu í að vinna í bs ritgerðunum okkar. Við eigum að skila þeim inn í síðasta lagi 14. maí og eins og staðan er núna ætti það að ganga upp. Í gær brugðum við skötuhjú okkur þó í leiðangur í þeim tilgangi að skoða notuð reiðhjól. Við erum orðin frekar leið á því að labba um allt og langar að geta hjólað um í sumar. Við fórum í 4 hjólaverslanir og 2 notaðar búðir og fundum aðeins 1 notað fjallahjól til sölu. Það hjól var vafið inn í plast í annari notuðu búðinni og hafði greinilega legið þar lengi. Búðareigandinn fór með okkur upp á þriðju hæð (sem er geymsla full af gömlum sjónvörpum, þvottavélum og ísskápum) og gróf upp hjólið. Þegar Gunni spurði hvað hann vildi fá fyrir það skellti hann á það 8.000 jenum. Gunni náttúrulega byrjaði að prútta og sagði; "yasukutte kudasi imasenka". Búðareigandinn brást bara við með því að hlægja og vildi frekar geyma hjólið áfram í geymslunni í nokkur ár í viðbót í stað þess að selja það á 5.000 jen. Stundum er eins og það vanti pínu viðskiptavit í Japanina:) Já og ég verð að nefna að á meðan við vorum á rölti um Otaru löbbuðum við fram á tvo Japani sem voru að spræna utan í næsta húsvegg. Ég sem hélt að þeir væru svo feimnir og "kurteisir"... þetta er kannski bara eðlilegt fyrir þeim:)

Sumarið er ekki langt undan hjá okkur. Í síðustu viku fengum við tvo daga þar sem hitinn fór upp í 20 gráður. Snjórinn bráðnar hratt og ekki er langt í að cherry blossom trén fari að blómsta. Blómin á þeim eru ljósbleik og þau detta af aðeins viku eftir að þau springa út. Þessa viku sem trén eru að blómstra leggja Japanir leið sína í stórum stíl í picnic og drekka nóg af bjór og sake. Sumarið hjá okkur hjónum er komið þegar við byrjum að grilla. Í gærkvöldi var fyrsta grillveislan. Gunni grillaði hamborgara og ég hélt hreinlega að hann ætlaði að kveikja í öllu International Húsinu þegar hann var að tendra grillið. Án spaugs átti ég alveg von á því að nágrannarnir myndu hringja á slökkviliðið. Þetta slapp þó allt saman nema hvað svalirnar okkar eru svolítið sótaðar. Í kvöld stendur svo til að grilla páskasteikina. Við ætlum að reyna að hafa pínulítið íslenska páska og hafa kjöt, brúnaðar og salat (eins og hjá mömmu). Svo það besta. Stebbi og Ásdís vinafólk okkar á Bifröst sendu okkur Nóa Sírius páskaegg... Hvað er hægt að biðja um meira. Takk kæru vinir, þið eruð best:)

Jæja ætlum að drífa okkur heim í að kynda grillið því að Jess vinur okkar frá USA ætlar að koma í mat. Við látum heyra frá okkur fljótlega, promise... Gleðilega páska allir


This page is powered by Blogger. Isn't yours?