<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, maí 14, 2003

Loksins loksins

BS verkefnin eru á leiðinni til Íslands í pósti (og það var langt frá því að vera ókeypis að senda þau:) Ég vona að það séu ekki allir búnir að gefast upp á því að kíkja inn á síðuna okkar þar sem við höfum ekki haft mikinn tíma til að skrifa upp á síðkastið. Síðasti mánuður eða svo hefur að mestu farið í BS verkefnin og svo er skólinn byrjaður á ný þannig að okkar vikulegu japönskupróf taka sinn tíma. En núna er þetta allt komið og yndislegt sumar framundan hjá okkur. Hérna í Otaru er farið að hlýna verulega og það koma dagar þar sem hitinn fer upp í 20 gráður. Í gærkvöldi grilluðum við meira að segja með tveimur nemendum frá Kóreu, stelpu frá Austurríki og vini okkar Jess frá USA og við borðuðum bara úti það var svo hlýtt.

Ef ég hleyp í stuttu máli yfir það sem að hefur helst drifið á daga okkar að undanförnu þá fórum við í leiðangur um daginn í leit að litlum sófa til að hafa í íbúðinni okkar. Allt í góðu með það nema hvað við þurftum að labba bæinn endilangann til að finna notaða búð sem átti sófa til sölu. Við fundum fínann sófa og ég spurði konuna sem að var að vinna hvað hann kostaði. Hún sagði að hann kostaði 1.000 yen, sem er ekki nema 700 íslenskar krónur. Ég var fljót að segja við Gunna að við þyrftum ekki að hugsa okkur um og ættum bara að kaupa af þeim eitthvað meira. Við fundum lítið stofuborð og 3 stóla til að setja út á svalir og buðum í allt saman 4.000 yen (2.800 isk). Þau (konan og einn karl) voru mjög ánægð með tilboð okkar og vildu endilega gefa okkur japanska dúkku og lampa í kaupbæti. Við vorum mjög ánægð með þetta og borguðum þeim fyrir dótið og þau sögðu okkur að koma aftur eftir rúmlega klukkutíma að sækja það og þau myndu keyra okkur heim með allt saman. Við drifum okkur að versla í matinn fyrir vikuna og ég og Jess fórum svo bara heim með leigubíl en Gunni fór í að sækja nýju húsgögnin. Við biðum og biðum og aldrei kom Gunni. Ég og Jess vorum orðin hrædd um að eitthvað hefði komið fyrir. Eftir einn og hálfan klukkutíma mætir Gunni heim í leigubíl og með engin húsgögn. Það sem hafði gerst var að þau sem ,,seldi" okkur dótið voru bara ,,part time workers" og höfðu því engann rétt á því að ákveða verð. Það sem beið Gunna þegar hann fór að sækja húsgögnin var yfirmaðurinn sem að sagðist geta selt honum þetta fyrir 12.000 yen. Gunni þráttaði lengi við hann og endaði með því að fá sófann og stofuborðið fyrir 3.000 yen. Þetta eru einkennilegir viðskiptahættir. Við vorum búin að borga fyrir allt saman en svo mætir bara bossinn á staðinn og þá þarf að byrja að semja upp á nýtt. Alltaf lendir maður í einhverju nýju hérna.


Í lok apríl og byrjun maí er svokölluð Golden week í Japan og einnig í Kína. Í þessari viku blómstar svokölluð Cherry Blossom tré hérna á Hokkaido og þá flykkjast Japanir í picknic og hella í sig japönsku sake. Þessi tré eru svakalega falleg á meðan þau blómstra en það varir bara í eina viku og svo verða þau bara græn á ný. Sum þeirra eru með hvítum blöðum á meðan önnur eru með bleikum og sum rauðum blöðum. International Circle var með Cherry Blossom (hanami á japönsku) party í almenningsgarði hérna í Otaru og við kíktum aðeins þangað. Það var um hádegi og sumir Japanarnir orðnir frekar rjóðir í kinnum eftir að hafa opnað einn eða tvo. Við stoppuðum ekki lengi við enda beið BS verkefnið eftir okkur heima. Við tókum fullt af myndum af trjánum í blóma og setjum þær inn við fyrsta tækifæri.


Í dag kom Herotsugu japanskur vinur okkar og sótti okkur og fór með okkur til Sapporo í smá ,,mótorhjólaleiðangur". Við erum að velta fyrir okkur hvort að það borgi sig að kaupa vespu sem að tekur tvo í stað þess að leigja bíl í hvert skipti sem við viljum ferðast eitthvað um Hokkaido í sumar. Við fórum í margar hjólabúðir og fundum á endanum eina tveggja manna vespu sem að þarfnast aðeins lagfæringar. Við báðum þá um að gera við hjólið og við myndum svo koma aftur á sunnudaginn til að prófa það og taka það almennilega út. En þó svo að við séum búin að finna hjólið er málið með próf til að keyra það. Hvorugt okkar er með skellinöðrupróf þannig að ætli Gunni endi ekki með því að fara í próf hérna. Þegar við hringdum til að athuga málið var okkur sagt að hann yrði að taka skriflegt próf og þyrfti að geta lesið kanji til að komast í gegnum það. Okkur leyst ekkert á það en vorum búin að lesa um það á netinu að útlendingar sem hefðu komið til Japan og keypt sér hjól hefðu aðeins þurft að taka verklegt próf. Málið er í athugun í þessum skrifuðu orðum og við látum ykkur vita hvernig fer.


Jæja ætli þetta sé ekki orðið gott í bili. Ég fer í það fljótlega að setja inn nýjar myndir og reyna að finna einhverja góða lausn á þessum myndasíðum sem að lokast alltaf eftir 2 mánuði. Ef einhver veit um betri þjónustu þá vinsamlegast látið mig vita, þetta fer að verða pirrandi.


Þangað til næst, bless bless

This page is powered by Blogger. Isn't yours?