<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, júní 09, 2003

Ferðalangar á leið til Wakkanai

Enn bætast við litlir hnoðrar á Íslandi!!! Í þetta sinn var það vinafólk okkar, þau Halldór og Ólafía, sem eignuðust son þann 5. júní. Við óskum þeim til hamingju og það verður rosalegt að koma heim og sá öll þessi nýju börn sem vinafólk okkar hefur verið að eignast á meðan við höfum verið hér í Japan.

Frans Veigar frændi var að fermast og óskum við honum til hamingju með að vera kominn í fullorðina manna tölu.

Um síðustu helgi, helgina 6-8 júní, fórum við í tjaldútileigu með vinum okkar hér í Japan, þeim Jess frá USA og Kerstin frá Austurríki. Ferðinni var heitið til Wakkanai sem er 40.000 manna bær á norður hluta Hokkaido. Við löguðum af stað um 8 leytið á föstudagsmorgun og með því að villast og stoppa hér og þar tók ferðin þangað um 5 klukkutíma. Við byrjuðum á því að tjalda en keyrðum síðan um og skoðuðum nýja staði í Japan. Það sem vakti mesta athygli var hversu margir Rússar voru á vappi í bænum, en aðeins eru um 50 km sigling til Rússlands þaðan sem við vorum. Um kvöldið var grillað og slakað á yfir varðeldi sem Gunni nostraði við allt kvöldið. Þegar tók að dimma kíktu svangir refir í heimsókn, stálu af okkur mat og gerðu tilraun til að stela vídeomyndavélinni hennar Kerstin. Allt kom fyrir ekki og við náðum að hlaupa hann uppi og endurheimta myndavélina. Laugardagurinn var notaður í að heimsækja nyrsta odda Japan, Souya-Misaki, og rendum þar einnig fyrir fisk. Eftir nokkuð þóf var ákveðið að hirða ekki fiskana 5 sem dregnir voru á land þar sem töluverð skítalykt var af vatninu:) Eftir að hafa fiskað góða stund á meðan Maja og Kerstin lágu í sólbaði í um 25° hita og glampandi sól fórum við í Onsen. Þetta Onsen er markaðssett sem "heilsu" Onsen sem er sérstaklega gott fyrir gamalt fólk. Þar sem allir eru naktir eru að sjálfssögðu sér karla og kvenna Onsen. Eftir að við Jess höfðum labbað um á sprellanum í hinum og þessum Onsenum fórum við í úti Onsen og litum yfir sjóinn á meðan við kældum okkur niður. Þá sáum við mjög marga hvali (trúlega um 20 talsins) vera að velta sér og koma upp úr sjónum mjög nálægt ströndinni. Við ákváðum því að stytta Onsen ferðina og fara niður á strönd til að bera þá augum, sérstaklega þar sem Jess hefur aldrei áður séð hval með berum augum. Eftir góðan og skemmtilegan dag var farið heim í tjald og grillað og spjallað meira. Fleiri skiptinemar ákváðu einnig að fara í helgarferð á svipaðar slóðir, nema þau völdu sér annan stað til að gista á, ströndina (og ekki með neitt tjald). Því fórum við að sjá hvort þau væru enn á lífi á sunnudagsmorgun, þrátt fyrir að vindurinn væri farin að blása voru þau nokkuð brött. Um 11 leytið var lagt af stað til Sapporo og farið að sjá danskeppni, en þessi keppni er annar stærsti árlegur viðburður í Sapporo. Umferðin var mjög hæg en almennt er hámarkshraði á vegum í Japan 50 km/klst, eins gott að löggan var ekki að mæla þennan daginn:)
Þetta var mjög skemmtileg helgi og gaman að ná smá veiði til að samgleðjast þeim veiðimönnum sem eru að fara að byrja veiðina heima á Íslandi.
Næsta ferð okkar hjónanna er skipulögð helgina 20-23 júní (nokkurskonar afmælisferð handa Gunna) og þá ætlum við að fara til Okinawa sem er nysta eyja Japan. Við ætluðum upphaflega að fara þangað í ágúst þegar Þórhildur og Halldóra koma en þá er high season og því alltof dýrt að fara. Þessa dagana er hins vegar verið að vinna í því að skipuleggja ferðalagið okkar um Japan í ágúst. Vinkona okkar á ferðaskrifstofunni hérna í skólanum er með málið.
Um næstu helgi liggur fyrir að fara til Sapporo á föstudaginn á Ikebana sýningu, en Ikebana eru japanskar blómaskreytingar. Á laugardaginn er svo partý á vegum Rotary klúbbsins hérna í Otaru en hann býður í siglingu og grillveislu. Á sunnudaginn er svo annað partý í boði Lions hérna í Otaru og þar er boðið upp á mat og drykki. Það er upplagt að nota svona samkomur til að sína sig og sjá aðra og auðvitað æfa sig í japönskunni, ekki spurning.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?