<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, júlí 18, 2003

Heimsókn í grunnskóla í Yoichi
Síðasta mánudag fórum við ásamt þremur öðrum skiptinemum í heimsókn í grunnskóla í bæ sem heitir Yoichi og rétt hjá Otaru. Það var voða gaman og við vorum alveg búin eftir daginn því að fórum í brennó og hina ýmsu hlaupaleiki með krökkunum. Það er bara 21 nemandi í skólanum á aldrinum 8 til 11 ára og 7 kennarar sem að þýðir 3 nemendur á hvern kennara. Það þætti nokkuð gott heima á Íslandi. Krakkarnir og kennararnir eru því eins og ein stór fjölskylda. Þau borða öll saman í hádeginu og krökkunum er skammtað eftir stærð og aldri. Allir verða að klára matinn sinn og mega ekki fara frá borðinu fyrr en að allt er búið af diskunum. Svo sjá þau sjálf um að ganga frá eftir matinn sem og að þrífa kennslustofurnar sínar, voða sniðugt. Eftir matinn eiga líka allir að bursta tennurnar og hver og einn er með sitt tímaglas til að passa að bursta alla vega í eina mínútu. Í skólanum eru líka allskyns dýr eins og fiskar, skjaldbökur, hamstur, eðla og meira að segja lirfur. Krakkarnir sjá um að gefa dýrunum og þrífa búrin þeirra. Við vorum voðalega hrifinn af þessum skóla sem við héldum að væri einkaskóli af því að hann er svo lítill og “kósí” en hann er víst bara venjulegur ríkisrekinn skóli. Eftir að hafa eytt daggóðum tíma með krökkunum og svitnað svolítið í brennó og fótbolta fórum við í ávaxtagarð hinum megin við götuna. Það voru foreldrar tveggja barna í skólanum sem áttu garðinn og þau voru svo yndislega að leyfa okkur að tína kirsuber og taka með okkur heim. Í Yoichi eru margir ávaxtagarðar þar sem fólk getur farið og týnt og borgað fyrir kílóið. Við gátum bara týnt kirsuber því að eplin og vínberin verða ekki til fyrr en í september. En við skötuhjúin þurftum nú bara að leggja okkur eftir þennan dag með krökkunum, vorum alveg búin á því og áttum meira að segja í erfiðleikum með að vakna:)

Fumiko og Kureha í mat
Matarboðið hjá okkur lukkaðist svona líka vel. Húsbóndinn grillaði kjúlla og bauð upp á bakaðar kartöflur og ferskt salat. Fumiko sagðist eiginlega vera farin að sakna þess að fá svona íslenskan mat:) Eftir að við vorum búin að borða buðum við upp á íslenska skúffuköku sem að sló heldur betur í gegn. Hún var kannski ekki alveg jafn flott og japanskar kökur sem keyptar eru í kökubúðum en góð samt sem áður. Við skemmtum okkur mjög vel og Fumiko mætti með myndasafnið sitt frá Íslandi á geisladiskum og sýndi okkur hvað hvert hún ferðaðist á Íslandi. Næsta mánudag förum við svo í heimsókn til Fumiko og foreldra hennar og mér skilst að Takayo ætli að mæta á svæðið. Hún gat ekki komið í matarboðið hjá okkur af því að hún var hjá foreldrum sínum sem að búa eitthvað svolítið frá Otaru.

Vinafólk okkar Halldór Már og Ólafía voru að láta skíra litla prinsinn sinn í síðustu viku og hann fékk nafnið Halldór Pálmi. Til hamingju með það. Við hlökkum rosalega mikið til að sjá ykkur í september og vonandi getur matarklúbburinn hist sem allra fyrst:) Eldað íslenskt lambakjöt og opnað eina rauða.

sunnudagur, júlí 13, 2003

Ég með Ikebana skreytinguna
Ég er búin að gera nokkrar Ikebana skreytingar og núna í tvö síðustu skipti hef ég farið til kennara sem heitir Reiko en hún býr hérna í Otaru og á og rekur litið sjúkrahús. Ég er að hugsa um að fara með Tótu og Halldóru í Ikebana en vandamálið er að Reiko talar BARA japönsku:)

Halló halló

Maður mætti nú alveg vera duglegri að skrifa en svona er lífið:) Við erum bara búin að taka því rólega undanfarið skötuhjúin og vinna í lokaverkefnum sem að við eigum að skila núna næstu daga og vikur. Eitt í Information science, eitt í Marketing seminar, eitt í Japanese affairs og svo stendur til að setja á svið stutt leikrit á japönsku en það mun koma í stað lokaprófs í japönskunni... guði sé lof. Veðrið hjá okkur er búið að vera mjög milt og gott síðustu daga. Sólin er ekki búin að láta sjá sig neitt of mikið en samkvæmt veðurspánni í gær á að vera sól og blíða alla þessa viku. Í kvöld ætlum við að hafa smá grillveislu og bjóða tveimur japönskum stelpum í mat. Önnur þeirra heitir Fumiko en hún var einmitt önnur þeirra sem var á Bifröst síðasta vetur. Hin stelpan heitir Kureha en við höfum aldrei hitt hana áður. Kundo (kona sem vinnur á bókasafninu) sendi póst á okkur og spurði hvort að við værum til í að hitta hana og tala við hana ensku af því að hún er í skóla í Englandi en er í fríi í Japan núna og langar að æfa sig. þannig er það nú. Við ætlum sem sagt að grilla kjúkling og hafa ferskt salat og bakaðar kartöflur með (voða íslenskt eitthvað).

Um næstu helgi ætlum við að láta verða að því að heimsækja Sapporo Dome en þar voru spilaðir einhverjir leikir í HM í fyrra. Höllin tekur 40.000 manns og mjög líklegt að maður verði bara eins og krækiber í helvíti þarna inni. Völlurinn er færanlegur þannig að það er hægt að rúlla grasinu út á meðan er verið að spila hafnabolta og rúlla því svo aftur inn þegar er verið að spila fótbolta... ég er kannski ekki best í að útskýra þetta en alla vega þá er hann færanlegur:) Við erum að fara að sjá hafnaboltaleik á laugardaginn klukkan 18:00. Liðin sem eru að keppa eru kannski ekki upp á marga fiska enda erum við aðallega að fara til að skoða höllina sjálfa. Helgina þar á eftir er hátíð í Otaru sem haldin er árlega. Við ætlum að taka þátt í henni og verðum í Yukatta (ekkert ólíkt og Kimono nema bara ekki eins flottir og fínir) og munum dansa um göturnar í Otaru með blævængi og ég veit ekki hvað og hvað... Við þurfum að mæta til að máta búningana og til að æfa dansinn sem á að taka eitthvað áður. þetta verður eitthvað skrautlegt en alveg örugglega rosa skemmtilegt:) Svo helgina þar á eftir ætlum við að fara og sjá Sumo í Sapporo. Það er eitthvað tournament í gangi þannig að mér skylst að þetta sé okkar eina tækifæri til að sjá Sumo hérna á Hokkaido. Lofum að taka fullt af myndum af þessum sérlega sexí köppum:) Svo fer nú að styttast í að Tóta og Halldóra lendi í Tokyo. Þær leggja af stað frá Íslandi 9. ágúst og lenda í Tokyo að morgni 10. ágúst. Vá hvað það verður gaman hjá okkur. Ég lofa að senda fysta glósupakkann í japönskunni til ykkar fljótlega:)

Já og ekki má svo gleyma aðalfréttinni en hún er að Steinar Ara vinur okkar frá Bifröst er að verða pabbi og von er á krílinu á afmælisdeginum hans þann 14. nóvember.... Innilega til hamingju Steini og frú:) Hlökkum til að hitta ykkur í sept.

Ætli sé ekki best að drífa sig heim að undirbúa grillveisluna fyrir Fumiko og Kureha. Ég fer svo að pressa á húsbóndann að setja inn nýjar myndir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?